Miðlar og leikir

Samskipti barna geta farið fram á fjölmörgum stöðum á netinu. Margt spennandi, áhugavert, gagnlegt og skemmtilegt er að finna á netinu, meðal annars samfélagsmiðlar og leikir.

Börn njóta þess gjarnan að kynnast ólíkum miðlum og leikjum og oftast gengur það vel. Mörg börn verða ekki fyrir neinu öðru en ánægjulegri reynslu og njóta þess að stækka sjóndeildarhringinn, eiga jákvæð samskipti við vini og læra á heiminn. Það skyldi ekki draga úr því fjölmarga jákvæða sem netið ber með sér. 

Margir foreldrar gera sér þó ekki grein fyrir því og þekkja það ekki nógu vel, að með því að spila ýmsa leiki á netinu eða með því að stofna reikning á samfélagsmiðli eru börnin komin í samband við fólk úti í heimi sem getur gert börn berskjölduð fyrir ýmsum hættum. 

Börn eru sjálf oft mjög fær í að skilja að þau skuli ekki eiga samtöl við neina sem þau þekkja ekki og að þau eigi ekki að samþykkja að tengjast neinum nema þau séu alveg viss um hver það sé. Það er þó mikilvægt að aðstandendur barna venji sig á að tala frjálslega um áskoranirnar sem fylgja því að vera á netinu og kenna þeim að útiloka (blocka) þá sem þau ekki vilja tengjast eða þekkja ekki, hafna boðum um tengingar eða samtöl og að kenna þeim að segja frá ef þau verða fyrir því að einhver er að trufla þau eða koma óviðeigandi fram við þau.  

Við mælum með því að spjalla reglulega við börnin um hvað þau eru að spila og hvaða miðla þau eru að nota. Gott er að fara yfir Hættur á netinu hjá Saft.is og ræða það við börnin. 

Góðar viðmiðunarreglur er að gefa aldrei upp persónulegar upplýsingar eins og nafn, aldur, heimilisfang, símanúmer, netfang, skóla og svo framvegis. Mikilvægt er að gefa ekki upp notendanöfn á samfélagsmiðlum. 

Við þurfum að minna börn og ungmenni á að bera virðingu fyrir öðru fólki, sama hvort um er að ræða kyn, kynvitund, kynhneigðir, kynþætti eða hvað annað sem við þekkjum ekki sjálf af eigin reynslu. 

Mikilvægt er að virða aldurstakmörk á samfélagsmiðlum og tölvuleikjum. 

Hjá Ábendingalínunni er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum og unglingum undir 18 ára aldri.

Jafnframt eru oftast leiðir inni í leikjum til að tilkynna um brot gegn reglum og að óska eftir að lokað sé á tiltekinn notanda.

Hér eru listar (alls ekki tæmandi ) yfir þá miðla og þá leiki sem er algengt að börn og ungmenni noti sér til skemmtunar og dægrastyttingar. 

Samfélagsmiðlar og samskiptaforrit

Þetta eru þeir miðlar þar sem aðilar geta haft samskipti sín á milli og eru mikið notaðir hér á landi.
 
 • Instagram
 • Snapchat
 • TikTok
 • Youtube
 • Facebook
 • Twitter
 • WhatsAp
 • Messenger
 • Telegram
 • Discord
 • Twitch

Tölvuleikir / Rafíþróttir

Í mörgum tölvuleikjum fara fram samskipti á milli spilara og í raun má segja að það eigi við um flesta tölvuleiki. Allir „net-fjölspilunarleikir (e.online multiplayer games)  eru með textaskilaboð eða spjall á milli spilara. 

Þessir leikir eru vinsælir hér á landi og við mælum með því að foreldrar  kynni sér leikina, sýni rafíþróttum áhuga og prófi að spila leiki með börnunum sínum og spjalli við þau um samskiptin sem þar fara fram.  

 • AmongUs
 • Geometry Dash
 • Minecraft
 • Fortnite
 • Roblox
 • Call of duty (margar útgáfur)
 • League of Legends
 • Rust
 • Counter-Strike
 • Rocket League

Nánari upplýsingar

Tölvuleikir og hefðbundnir samskiptamiðlar eru ekki það eina sem þarf að fylgjast með.

Flestir foreldrar þekkja hefðbundna samfélagsmiðla eins og Instagram, SnapChat og Facebook. Ekki eru öll jafn kunnug TikTok og hvað þá Discord. Einnig eru ekki allir foreldrar sem gera sér grein fyrir því að YouTube flokkast í raun sem samfélagsmiðill og að þar eru mörg börn og ungmenni með reikning án vitneskju foreldra.

Mörg börn og ungmenni fylgjast með ákveðnum „YouTube-erum“ og gerast áskrifendur að þeirra efni. Algengt er að þau beini fylgjendum sínum inn á Discord „serverana“ sína.

Það eru fleiri samfélög á netinu þar sem fólk hittist og á samskipti sín á milli. Ef börn og ungmenni eiga leikjatölvur eins og Playstation, Xbox , Nintendo Switch eða PC tölvur sem eru nettengdar og með einhverri leikjaáskrift þá fylgir þeirri áskrift ákveðið svæði (e. platform) þar sem áskrifendur og spilarar geta átt samskipti sín á milli.

Discord er mjög vinsælt samskiptaforrit/samfélagsmiðill með fjölþætta virkni. Þar hittast ungmenni og spjalla og deila margvíslegu efni. Þau geta horft saman á myndir og þætti og hlustað á tónlist með því að streyma af eigin tölvu.  Hægt er að tala saman bæði með spjalli (e. voice chat) og með skrifuðum skilaboðum. 

Á Discord eru búnir til nokkurs konar hópar (e. server) og þar inni er hægt að hafa allskonar rásir fyrir allskonar efni. 

Vinsælir tölvuleikjaspilarar eiga það til að beina áhorfendum sínum inn á Discord hópana sína (e.server) og þá er notandinn kominn í beint samband við fullt af fólki. 

Það er þvi mjög einfalt fyrir börn og ungmennum að komast í samskipti við ókunnuga á Discord. 

Twitch er vefsíða sem er að mestu notuð til að streyma tölvuleikjaspilun og er vinsælasta síðan til að fylgjast með öllu sem tengist rafíþróttum. Á Twitch er hægt að horfa á streymi og þá er alltaf spjallgluggi sem sá sem á rásina stjórnar. Flest þetta spjall er opið öllum. Þó að Twitch sé að mestu notað til að fylgjast með öðrum spila tölvuleiki er þar ýmislegt efni sem ekki er ætlað börnum. Flestir notendur á Twitch elta (e. follow) ákveðna spilara á vefsíðunni.

Margir spilarar á Twitch deila Discord hópnum sínum (e. server) með sínum fylgjendum.  

Aldurstakmörk

Allir samfélagsmiðlarnir eru með 13 ára aldurstakmark en Telegram er með 16 ár. Það er þó oftast lítið mál fyrir börn að skrá sig inn á þessa miðla án þess að vera komin með aldur til. 

Við mælum eindregið með því að kenna börnunum að ljúga ekki til um aldur sinn og hvetjum foreldra til að standa saman og leyfa samfélagsmiðla eingöngu fyrir börn sem eru komin á aldur.