Góð ráð fyrir samtal

Rannsóknir sýna að börn sem segja frá ofbeldi, hafa í mörgum tilfellum gert margar tilraunir til að segja frá áður en þeim er trúað og einhver kemur þeim til aðstoðar.

Því er það mikilvægt að allir foreldrar og fullorðnir í tengslahring barna bregðist alltaf vel við þegar barn segir frá því ef þau hafa orðið fyrir ofbeldi eða óviðeigandi framkomu af hálfu einhvers, barns eða fullorðins.

Öll ráðin hér er mikilvægt að nýta út frá aldri barnanna.

Tölum um tilfinningar


Ræðum við börnin okkar um tilfinningar og kennum þeim að bera kennsl á þær. Viðurkennum allar tilfinningar og hjálpum þeim að skilja hvað þær merkja og hvernig við getum tekist á við þær. Hvernig tökumst við á við reiði eða vonbrigði, ástarsorg eða skömm? Það er mikilvægt fyrir börn að finna að tilfinningar þeirra eigi rétt á sér.

Nýtum bækur


Það er gott að nýta bækur til að byggja upp samtal. Við getum notað söguþráðinn í bókum sem við erum að lesa saman til að spyrja börnin okkar spurninga.

  • Hefur þú einhvern tímann lent í einhverju eins og söguhetjan í þessari bók?
  • Hvað hefðir þú gert í hennar eða hans sporum?
  • Hvernig heldur þú að söguhetjunni líði núna?


Það er dýrmætur vani að lesa fyrir börnin okkar reglulega og þarf ekki endilega að gerast bara rétt fyrir svefninn. Það má til dæmis lesa saman í hádeginu um helgar og spjalla svo saman um söguþráðinn.
Þegar börnin stækka og fara að lesa meira sjálf er gott að spyrja þau út í hvað þau eru að lesa og forvitnast um söguþráðinn.

Búum til þægilegar aðstæður fyrir samtal

Hvort sem það er samtal yfir morgunmatnum, meðan kvöldmaturinn er eldaður, yfir kvöldmatnum eða seinna á kvöldin þá skiptir máli að við séum til staðar og beitum virkri hlustun og gefum okkur nægan tíma. Hlustum virkilega á það sem okkur er sagt og spyrjum nánar út í það sem við viljum vita meira um.

Ef okkur grunar að eitthvað sé að angra börnin okkar þá getur líka verið gott að búa til nýjar aðstæður fyrir samtal. Það getur til dæmis reynst vel að fara saman í bíltúr og spjalla. Einnig er hægt að fara í göngutúr eða í sund og búa til þægilega samveru með barninu þannig að því líði vel.

Það er mikilvægt að þrýsta ekki of mikið á börnin heldur gefa þeim tíma og rúm til að tjá sig á þeirra forsendum.

Spyrjum spurninga en yfirheyrum ekki

Leggjum okkur fram við að spyrja börnin okkar um daginn þeirra. Ekki bara spyrja hvað segirðu eða hvernig var í dag. Spyrjum dýpri og nákvæmari spurninga en þó án þess að yfirheyra börnin. Búum til samtal um þeirra líðan yfir daginn og deilum hvernig okkur leið.

 
Dæmi um spurningar:
  • Hvernig var maturinn í hádeginu?
  • Með hverjum/hverri varstu í frímínútum?
  • Hjá hverri/hverjum sastu í stærðfræði?
  • Varstu samferða einhverjum/einhverri heim?
  • Hvernig leið þér í skólanum í dag?
  • Hvernig leið þér eftir fótboltaæfinguna? En á æfingunni?
  • Hvað voruð þið að gera í félagsmiðstöðinni?
  • Hvað gerðir þú á netinu í dag?
  • Ertu að spila einhverja góða leiki? 
  • Hvað voruð þið vinkonurnar/vinirnir að ræða á netinu/samfélagsmiðlum í dag?
 
Dæmi um það hvernig við getum fléttað okkar eigin degi saman við samræðurnar:
  • Maturinn í vinnunni hjá mér í dag var mjög góður, hvernig var maturinn hjá þér?
  • Ég var mjög þreytt/þreyttur í morgun og var svolítið lengi að koma mér af stað í vinnunni, hvernig gekk þér í fyrsta tímanum?
  • Í dag sagði vinnufélagi minn mér frá bíómynd sem hún horfði á um helgina. Áttir þú skemmtilegt samtal við einhverja af þínum vinum eða vinkonum í dag?
  • Þegar ég var yngri þá spiluðum við vinirnir oft Counter strike eða Donkey kong, hvaða leikir eru vinsælir í dag? 
 
Forvitnumst um það hvað börnin okkar eru að gera:
  • Spyrjum þau hvernig þau eiga samskipti við vini sína á netinu.
  • Biðjum þau um að sýna okkur leikina sem þau eru að spila og prófum að spila þá með þeim.
  • Fáum að vita hvaða YouTube myndbönd þau hafa verið að horfa á nýlega.
  • Hvaða Youtube-ari er í uppáhaldi hjá þeim?
  • Spyrjum þau út í tónlistina sem þau eru að hlusta á. Hvað merkja textarnir í lögunum?
  • Hvaða sjónvarpsþætti eru þau að horfa á?
  • Hver er uppáhalds bíómyndin þeirra?

Hlustum


Það er ekki nóg að búa til aðstæður og venjur þar sem samtal á sér stað. Fullorðna fólkið verður sannarlega að gefa sér tíma, leggja frá sér snjalltækin og hlusta á börn og ungmenni. Börn segja stundum frá ofbeldi sem þau hafa lent í oft, áður en einhver tekur eftir því. Þau kannski segja það bara ekki á þann hátt sem við gerum ráð fyrir. Við þurfum að hlusta á þau með öllum skilningarvitum.

Við þurfum til dæmis að fylgjast með hegðun þeirra og velta fyrir okkur hvort hún breytist.

Dæmi um breytta hegðun getur verið:
  • Óvenju mikil þreyta.
  • Viðkvæmni
  • Sinnuleysi gagnvart skóla, útliti, fjölskyldu eða vinum.
  • Vilja ekki fara á íþróttaæfingu eða í félagsmiðstöðina.
  • Skapvonska eða pirringur.
  • Breyting á vinahóp.
  • Hættir að koma í kvöldmat.
  • Á allt í einu nýja hluti eða peninga.

Ekki grípa fram fyrir hendurnar á þeim

Ef börnin okkar telja að við munum taka af þeim völdin á þeirra eigin lífi er ólíklegra að þau muni segja okkur frá erfiðri lífsreynslu.

Ef upp koma vandamál til dæmis í skóla eða á vinnustað þá verða þau að hafa eitthvað um það að segja hvernig brugðist verður við þeim. Foreldrar eiga ekki að taka á málunum nema börnin eða ungmennin vilji það og þá verðum við líka að gera það á þeirra forsendum en ekki okkar og allra helst með þeirra samþykki og vitund.

Börn eiga rétt á því samkvæmt Barnasáttmálanum að taka þátt í ákvörðunum sem þau varðar og það er mikilvægt að sá réttur sé virtur inni á heimilum sem annars staðar úti í samfélaginu.

Ef börnin eiga von á of miklum látum, dómhörku eða drama í stað þess að fá bara áheyrn og hugsanlega ráð er líklegra að þau leiti ekki til okkar.

Þetta á þó ekki við ef börn eða ungmenni eru í hættu eða búa við ófullnægjandi aðstæður. Þá ber okkur samkvæmt barnaverndarlögum að tilkynna málið til barnaverndar.

Ekki refsa börnum fyrir að lenda í vanda

Börn sem lenda í vanda til dæmis á netinu geta fundið fyrir mikilli skömm. Þegar þau segja frá verða þau að vita að þeim verði ekki refsað, jafnvel þó þau hafi gert eitthvað sem við teljum að þau hefðu ekki átt að gera.

Þeirra raunveruleiki er mjög frábrugðinn þeim sem við ólumst upp í og það er mikilvægt að við höfum það alltaf í huga. Ef ungmenni sendir nektarmynd af sér til kærasta eða kærustu er það ekki gert með það í huga að hugsanlega verði brotið á því síðar meir heldur vegna þess að það treystir manneskjunni sem það er með. Barnið eða ungmennið ber ekki ábyrgðina á því ef myndin fer í dreifingu. Við verðum að tryggja að barn eða ungmenni sem hefur lent í því að mynd af þeim sem hefur farið í dreifingu viti að það er ekki þeim að kenna. Ábyrgð á ofbeldi liggur alltaf hjá gerendunum.

Það að deila áfram kynferðislegum myndum af barni er ólöglegt og liggur við því allt að tveggja ára fangelsisrefsing.

Ef við lendum í þeim aðstæðum að barn eða ungmenni segi frá til dæmis dreifingu myndar af því á netinu og við finnum fyrir reiði eða óöryggi og treystum okkur ekki til að taka umræðuna strax er gott að þakka þeim fyrir að treysta okkur fyrir þessu og biðja um að fá smá umhugsunartíma til að finna út hvað sé best að gera. Ef við reiðumst þeim eða bregðumst illa við getum við brotið niður traust og minnkað líkurnar á því að þau segi okkur meira.

Meirihluti samskipta barna fer fram með snjalltækjum og það að taka af þeim snjalltæki ef þau hafa lent í vanda getur valdið því að þau einangrist frá vinum sínum og brotið þau meira niður.

Trúum þeim

Það mikilvægasta sem við gerum er að trúa börnum og ungmennum þegar þau segja okkur frá því sem þau hafa lent í eða frá einhverju sem veldur þeim vanlíðan. Ef við gerum lítið úr þeirra upplifun eða líðan munu þau líklega ekki treysta okkur fyrir sínum vandamálum aftur.

Leitum okkur aðstoðar

Gruni okkur að barn eða ungmenni sé í vanda eða hafi lent í erfiðri lífsreynslu eru margir staðir sem hægt er að leita til:

Barnaheill

Bergið – headspace

Barna- og unglingageðdeild

Einn einn tveir

Foreldrahús

Heilsugæslan

Heilsuvera – netspjall við hjúkrunarfræðing

Heimili og skóli

Hjálparsíminn 1717

Námsráðgjafar í skóla barnsins

SAMFOK

Skólasálfræðingur 

Starfsfólk félagsmiðstöðva

 

Látum vita


Ef við vitum af kynferðislegu eða klámfengnu efni af börnum eða unglingum, eða ef slíku efni er beint að börnum og unglingum á netinu hvort sem það er af okkar börnum eða annarra, látum þá vita.

Ábendingarlínan
Barnavernd
Lögreglan