Hlustum er landsátak til að hvetja foreldra og forsjárfólk til að hlusta á börn og ungmenni og þannig skapa betra samfélag fyrir börn.

Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi samkvæmt Barnasáttmálanum og því þarf samfélagið að gera það sem hægt er til að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi. Ein mikilvægasta forvörnin sem þekkt er, er að barnið hafi tækifæri til að segja frá þegar það upplifir eitthvað óvenjulegt eða erfitt. Að barnið hafi trúnað einhvers náins fullorðins sem það geti alltaf leitað til. Oftast er það foreldri sem gegnir því hlutverki í lífi barns.

Börn eiga líka rétt til að tjá skoðanir sínar frjálslega um allt sem hefur áhrif á þau eða um málefni sem þau varðar. Fullorðnum ber jafnframt að hlusta á raddir barna og taka réttmætt tillit til þeirra við ákvarðanir sínar og í daglegu lífi.

Til þess að byggja upp traust og tækifæri til að segja frá erfiðri reynslu eða líðan er mikilvægt að barnið fái tækifæri til að þjálfa sig í tjá sig og eiga spjall við fólkið sitt. Góð leið til þess er að byggja upp hefð fyrir samtölum og spjalli um allt og ekkert. Foreldrar sýni barni áhuga, spyrji af forvitni og áhuga um skólann, vinina, áhugamálin og líðan. Þannig fær barnið hvatningu og þjálfun frá unga aldri í því að tjá sig um hvaðeina, gleði og sorgir, vonir og væntingar. Það er mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til að hlusta á börnin sín og veiti þeim rými til að segja frá. Ekki bara með það fyrir augum að gefa þeim ráð heldur sannarlega hlusta og reyna að skilja þeirra raunveruleika.

Hér á síðunni eru ýmsar upplýsingar sem gagnast foreldrum til að byggja upp það traust sem þarf til að börn og ungmenni treysti þeim fyrir sínum vangaveltum og áhyggjum.